Saturday, July 19, 2008

Monerrey gengur upp og síðan niður

Jæja, þá erum við komin til Monterrey og búin að koma okkur fyrir. Segja má að frá fyrsta degi hafi allt gengið eins og í sögu. Við komum á ódýra hostelið okkar á þriðjudagskvöldið og þar tók einkar vinalegur mexíkani á móti okkur og sýndi okkur staðinn og sagði okkur það sem við þurftum að vita. Hann síðan benti okkur í átt að bænum og skólanum, sem hvort tveggja var hægt að sjá af svölum hostelsins. Að því loknu fórum við inná herbergið okkar sem var stórt, glæsilegt en þeim mun heitara en gangurinn sem þó var heitur. Við brugðum því á það ráð að losa okkur við sængurnar, já sængurnar, sem voru í rúminu og færa rúmið út á mitt gólf undir viftuna sem dreifði heita loftinu um herbergið til að gera svefninn bærilegri í 35 stiga hitanum.

Miðvikudagur og fimmtudagur fóru síðan í endurteknar heimsóknir á áttundu hæð glerhýsis skólans og í göngutúra um hverfin umhverfis skólan í leit að húsnæði. Í skólanum tók á móti okkur yndisleg stúlka sem hringdi fyrir okkur eitthvað um 30-40 símtöl í númer leigusala sem við höfðum séð auglýsa með RENTA skiltum í gluggum, sem höfðu hengt upp auglýsingar á símastaura eða sem við höfðum fundið á netinu. Í húsnæðisleit okkar stoppuðu okkur einnig þrjár gamlar konur og buðu okkur húsnæði til leigu, þannig að framboðið var gríðarlegt. Verst var að mikið af því sem var í boði var fyrir staka námsmenn með litlu rúmi í skítugu herbergi og þar fram eftir götunum. Því fór sem fór og eftir að hafa skoðað 8 íbúðir fórum við aftur á þá fyrstu sem var í dýrari kantinum en hafði of marga þægilega kosti til að geta sagt nei.
Einn helsti kosturinn var að við gátum hætt leitinni að húsnæði sem var erfið og þreytandi og komið okkur fyrir strax á föstudaginn. Annar kostur er að hér er boðið upp á 24 tíma gæslu og þurfum við því ekki að óttast þjófótta mexíkana, ásamt því að húsið er varið með vegg, brútal göddum og fimmfaldri rafmagnsgirðingu.

Þá er er annar kostur sem vonandi á eftir að skila okkur í toppformi heim til Íslands en það er lítil líkamsrækt sem er á 6. hæð hússins.

Til að toppa þetta alltsaman þá eru risastórar þaksvalir með sólstólum, og grilli til almannanota. Þær hafa víst orð á sér sem alræmdar partýsvalir þannig að skemmtanalífið ætti að haldast virkt hér í Mexíkó.
Þá má að sjálfsögðu ekki gleyma magnaða útsýninu af svölunum sem nær til allra átta. Hér fyrir neðan sést hvað við lentum skemmtilega nálægt skólanum, en bæði svarta háhýsið og hallandi kassarnir eru hluti af skólanum.
Ekki er þó allt gull sem glóir og að sjálfsögðu eru óskostirnir nokkrir. Einn helsti ókosturinn er sá að fljótlega eigum við von á herbergisfélaga sem við munum deila stofu og eldhúsi með og bíðum við því spennt eftir því að sjá hver og hvaðan sá eða sú verður. Þá komumst við að því að það voru nokkrir hlutir sem vantaði eins og t.d. hreinlæti...bakaraofn. Það var því ekki eftir neinu að bíða og áður en svitinn af því að bera 80 kg. farangurinn upp á herbergi var þornaður var rokið útí næsta stórmarkað, og keypt það sem vantaði og rúmlega það. þremur tímum og 25 þús krónum síðar vorum við kominn heim heiðarbýlið með hreinsiefni, 6 handklæði, mat og Black&Decker ristavélaofn....og of stórt eldfast mót :)
Eins og sjá má var Ester sátt við verslunarferðina. Síðan var skúrað, skrúbbað og skrifað niður það sem gleymdist að kaupa. Ester hélst sátt allt þar maginn fór í krampa og hlutir hættu að ganga upp og fóru að ganga niður. Laugardagurinn hefur síðan að mestu farið í maraþon salernisferðir okkar beggja og almenna leti þess á milli, en nú þegar þetta er skrifað á miðnæti á laugardegi lítur út fyrir að heimilsmönnum sé farið að batna og hægt og rólega geti hlutirnir aftur farið að ganga upp í Monterrey.

Posted by Picasa

8 comments:

Villingur said...

Þetta lítur vel út, jah svona þegar magarnir lagast ;)

Gaman að heyra í þér á föstudaginn Hjörtur :)

Anonymous said...

Það er gott að eiga vaselín þegar svona stendur á........
varaþurkurinn í hitanum getur verið all svaðalegur;-)
kv.Agnes og co.

Anonymous said...

Þið eruð bara snillingar, og ekki lengi að drífa í hlutunum. Frábært að sjá hvað allt gengur vel, vona að þið séuð orðin góð í mallanum, kannski bara best að elda bara heima og sjóða allt í kaf... svona fyrstu vikurnar (móðurlegt ráð). Hringi fljótlega í ykkur.
Mamma Gúa

Anonymous said...

Hahaha....gaman að fá að fylgjast með - þetta er hið stæðilegasta húsnæði sem þið hafið valið ykkur ;) Bíð spennt eftir að heyra hvernig sambýlingurinn verður ;)

Anonymous said...

Maður má ekki bregða sé í bústað þá eru bara komnar margar færlsur og ég bara þarf að lesa bloggið í hollum! Æðislegt samt að þið séuð svona dugleg að blogga. Leitt þetta með eldfastamótið hehe:)

Anonymous said...

hæhæ :) flott húsið sem þið búið í! :) vona að mallinn fari ekki í meira uppnám ;)

kv Þórhildur

Anonymous said...

svo muniði að þegar Dolly gengur yfir þá fariði og standið í hurðargati eða hlaupið út eða...... nei það er reyndar í jarðskjálfta, æ þið reddið þessu;)

Anonymous said...

Ansi myndarleg íbúð :-)

Kv, Þóra