Sunday, July 27, 2008

Leikskólakennarinn Betty og Latibær

Góðan og blessaðan daginn gott fólk. Frá Mexíkó er það að frétta að Dolly náði ekki til Monterrey og varð því lítið annað en yfirvofandi ógn sem aldrei varð. Dolly varð samt til þess að við fórum ekki í ferðalag þessa helgi heldur héldum okkur í ævintýraleit á heimaslóðum okkar í Monterrey.
Eitt þeirra var þegar kíkt var út á lífið ásamt nýja meðleigjandanum, Martin, og þýskum kunningja hans á miðvikudagskvöld en þá var tilboð á bar í hvefinu...5 í fötu á 55 pesóa, eða rúmar 400kr. Hér fyrir neðan má sjá ein myndina sem við eigum af Martin en hann er þjóðverjinn til vinstri, og á ættir sínar að rekja til Póllands.
Á barnum tók á móti okkur hress og kátur, og enskumælandi, mexíkani, Javier. Hann sagði okkur frá hinum ýmsu skemmtilegu staðreyndum um Monterrey. t.d. að heldri borgarar Mexíkönsku Mafíunar hafi fluttst til borgarinnar á síðastliðnum árum og með þeim hættuleg ungmenni úr fjölskyldunni sem eiga það til að bera vopn, og gera miðbæinn hættulegan. Þá sagði hann okkur einnig frá því að byssurnar sem lögreglan í Mexíkó er með eru óhlaðnar? Hér sést Javier heilsa að hermannasið.
Fimmtudagurinn fór í milda þynnku, tímabundið þunglyndi og verslunarferð í stórmarkaðinn og fyrsta spænskutíma Esterar hjá nýja kennaranum. Búist var við að sú nýja hefði reynslu af því að kenna fullorðnum og þessvegna hafi sú fyrsta bent á hana, enda var hún grunskólakennari. Ekki varð það raunin því á móti Ester tók leikskólakennarinn Betty sem ætlar að kenna henni spænsku. Betty er víst annsi fín og ætti þetta því allt að ganga vel, þó að Ester í "eldri" kantinum miðað við það sem Betty er vön.

Á Föstudaginn héldum við í ævintýraferð til Guadalupe, sem er borg samliggjandi Monterrey. Þar létum við taxann skutla okkur í miðjan bæinn og gengum svo í átt að því sem á korti leit út fyrir að vera skógi vaxið svæði. Þegar við nálguðumst það fórum við að heyra ítrekuð hópöskur...og jú, það var ekki um að villast, við höfðum rambað á Tívolí. Eftir að hafa gegnið vitlausa leið í 20 min. ákváðum við að taka taxa að inngangnum. Og hvað haldiði að hafi blasað við okkur annað en líkneski af Sollu stirðu sem búið var að hengja upp í tré. Undir því dönsuðu börn og fullorðnir og kyrjuðu söngva sem við munum aldrei vita hvað þýða.
En tívolí ferðin var hin allra besta skemmtum eins og sjá má. Við fórum í fullt af tækjum, borðuðum vondan Subway, og jafn vondan hamborgara. Næst stefnum við að því að fara á sömu slóðir í Dýragarðinn, sem er samliggjandi tívolíinu.
Á laugardagskvöldið kíktum við á Djammið í Monterrey sem fer fram í Barrio Antiguo. Þar er allt morandi í klúbbum og skemmtistöðum. Við fórum að ráðum Martins og kíktum á SUITE. Þar kostaði 250 pesóa inn fyrir okkur bæði, eða um 2000kall, en allir drykkir voru á 1 pesóa, eða um 8kr. Útþynntir drykkirnir voru bornir fram í fáránlega stórum klakafylltum frauðplastsglösum...þetta var eini slíki drykkur kvöldsins og eftir þetta fengum við okkur bara bjór.
Eftir að hafa drukkið nokkra drykki á SUITE ákváðum við að prófa eitthvað annað, enda Mexíkanska tónlisitinn framandi og erfitt að dansa við hana og staðurinn gjörsamlega stappaður. þá römbuðum við inn á hressan raftónlistarklúbb og áttum dansgólfið frá fyrstu mínútu.
Mexíkanarnir héldu ekki vatni yfir trylltum dansi íslendinganna og gerðist hrikalega fyndinn atburður. Eftir um hálftíma dans sat Ester og var að hvíla sig þegar ung mexíkönsk dansmær nálgaist hana feimnislega og spurði hana góðfúslega leyfis hvort hún og vinkonur hennar mættu dansa við kærastann hennar. Hlægjandi gaf Ester leyfi fyrir því og skyndilega var Hjörtur með Mexíkannskar meyjar á alla kannta. Dansinn varði meðan Ester náði í nýjan bjór og nýtti Hjörtur tækifærið þegar hún kom aftur til að yfirgefa dansinn, enda allur hinn kjánalegasti.

Wednesday, July 23, 2008

Dolly snýr aftur

Nú rúmum 11 árum eftir að skoska kindinn Dolly skók heiminn sem fyrsta klónaða spendýrið hefur ókindinn Dolly snúið aftur í formi 2.stigs fellibyls sem stefnir óðfluga í átt að Monterrey.
Þegar þetta er skrifað er klukkan 15.40 að staðartíma og vindurinn þegar orðinn meiri en hann hefur áður verið á okkar 8 dögum hér. Áætlað er að Dolly nái til Monterrey með kvöldinu þannig að við bíðum spennt eftir okar fyrstu kynnum af fellibyl sem þið fáið að heyra af von bráðar.

En á jákvæðari nótunum...þá eru "hlutirnir" farnir að ganga aftur upp...ef svo má að orði komast. Stormurinn hefur þó haft þau áhrif á okkur að við þorum ekki að panta okkur flug útá strönd á morgun því við teljum að því gæti verið seinkað vegna Dolly og blalblabla...þannig að við verðum líklega heima.
Þar mun við njóta félagsskapar einmanna þjóðverjarns Martins sem flutti inn í herberið við hliðin á okkur fyrr í dag. Hann mun vera hér í 4 vikur áður en hann heldur af stað í ferðalag um Yucatan skaga Mexíkó.
Þá er Ester byrjuð á fullu að Læra spænsku fyrir inntökuprófið sitt sem verður í ágúst. Hún er þegar búinn að hitta einn kennara, sem neitaði að taka hana að sér, og mun hitta annan á morgun sem vonandi verður samvinnuþýðari.

Annars byðjum við ykkur vel að lifa og bendum á að heimasímanúmer og heimilsfang eru kominn hérna við hliðin á því ekkert til fyrirstöðu að fara að senda okkur bréf og gjafir :)

Saturday, July 19, 2008

Monerrey gengur upp og síðan niður

Jæja, þá erum við komin til Monterrey og búin að koma okkur fyrir. Segja má að frá fyrsta degi hafi allt gengið eins og í sögu. Við komum á ódýra hostelið okkar á þriðjudagskvöldið og þar tók einkar vinalegur mexíkani á móti okkur og sýndi okkur staðinn og sagði okkur það sem við þurftum að vita. Hann síðan benti okkur í átt að bænum og skólanum, sem hvort tveggja var hægt að sjá af svölum hostelsins. Að því loknu fórum við inná herbergið okkar sem var stórt, glæsilegt en þeim mun heitara en gangurinn sem þó var heitur. Við brugðum því á það ráð að losa okkur við sængurnar, já sængurnar, sem voru í rúminu og færa rúmið út á mitt gólf undir viftuna sem dreifði heita loftinu um herbergið til að gera svefninn bærilegri í 35 stiga hitanum.

Miðvikudagur og fimmtudagur fóru síðan í endurteknar heimsóknir á áttundu hæð glerhýsis skólans og í göngutúra um hverfin umhverfis skólan í leit að húsnæði. Í skólanum tók á móti okkur yndisleg stúlka sem hringdi fyrir okkur eitthvað um 30-40 símtöl í númer leigusala sem við höfðum séð auglýsa með RENTA skiltum í gluggum, sem höfðu hengt upp auglýsingar á símastaura eða sem við höfðum fundið á netinu. Í húsnæðisleit okkar stoppuðu okkur einnig þrjár gamlar konur og buðu okkur húsnæði til leigu, þannig að framboðið var gríðarlegt. Verst var að mikið af því sem var í boði var fyrir staka námsmenn með litlu rúmi í skítugu herbergi og þar fram eftir götunum. Því fór sem fór og eftir að hafa skoðað 8 íbúðir fórum við aftur á þá fyrstu sem var í dýrari kantinum en hafði of marga þægilega kosti til að geta sagt nei.
Einn helsti kosturinn var að við gátum hætt leitinni að húsnæði sem var erfið og þreytandi og komið okkur fyrir strax á föstudaginn. Annar kostur er að hér er boðið upp á 24 tíma gæslu og þurfum við því ekki að óttast þjófótta mexíkana, ásamt því að húsið er varið með vegg, brútal göddum og fimmfaldri rafmagnsgirðingu.

Þá er er annar kostur sem vonandi á eftir að skila okkur í toppformi heim til Íslands en það er lítil líkamsrækt sem er á 6. hæð hússins.

Til að toppa þetta alltsaman þá eru risastórar þaksvalir með sólstólum, og grilli til almannanota. Þær hafa víst orð á sér sem alræmdar partýsvalir þannig að skemmtanalífið ætti að haldast virkt hér í Mexíkó.
Þá má að sjálfsögðu ekki gleyma magnaða útsýninu af svölunum sem nær til allra átta. Hér fyrir neðan sést hvað við lentum skemmtilega nálægt skólanum, en bæði svarta háhýsið og hallandi kassarnir eru hluti af skólanum.
Ekki er þó allt gull sem glóir og að sjálfsögðu eru óskostirnir nokkrir. Einn helsti ókosturinn er sá að fljótlega eigum við von á herbergisfélaga sem við munum deila stofu og eldhúsi með og bíðum við því spennt eftir því að sjá hver og hvaðan sá eða sú verður. Þá komumst við að því að það voru nokkrir hlutir sem vantaði eins og t.d. hreinlæti...bakaraofn. Það var því ekki eftir neinu að bíða og áður en svitinn af því að bera 80 kg. farangurinn upp á herbergi var þornaður var rokið útí næsta stórmarkað, og keypt það sem vantaði og rúmlega það. þremur tímum og 25 þús krónum síðar vorum við kominn heim heiðarbýlið með hreinsiefni, 6 handklæði, mat og Black&Decker ristavélaofn....og of stórt eldfast mót :)
Eins og sjá má var Ester sátt við verslunarferðina. Síðan var skúrað, skrúbbað og skrifað niður það sem gleymdist að kaupa. Ester hélst sátt allt þar maginn fór í krampa og hlutir hættu að ganga upp og fóru að ganga niður. Laugardagurinn hefur síðan að mestu farið í maraþon salernisferðir okkar beggja og almenna leti þess á milli, en nú þegar þetta er skrifað á miðnæti á laugardegi lítur út fyrir að heimilsmönnum sé farið að batna og hægt og rólega geti hlutirnir aftur farið að ganga upp í Monterrey.

Posted by Picasa

Athugið, Athugið ný símanúmer!!!

Í gær barst símtal frá Íslandi en það voru Embla og Pabbi en þau höfðu komist að því að það vantaði 1 fyrir aftan 52 í landsnúmeri Mexíkó.
Númerin okkar eru því:

Sími Ester : +521 811 695 4807

Sími Hjörtur : +521 811 298 4550

Megi hver hringja sem tímir
Kær kveðja frá Mexíkó :)

Friday, July 18, 2008

Frá Montreal til Monterrey

Eins og áður sagði er Montreal þekkt fyrir óteljadi hátíðir öll sumur og til marks um það þá römbuðum við á tilfinningaþrunginn dans kínverskra ungmenna í litíkum fötum þegar við komum inn í ChinaTown, en það vildi svo skemtilega til að þar var einn vettvangur Multicultural Festival.
Hátíðir eru ekki það eina sem Montreal hefur uppá að bjóða því Daníel var staðráðinn í því að kyyna okkur fyrir öllum uppáhalds veitingahúsunum sínum. Fyrst ætlaði hann að fara með okkur á "the best Syrian restrant in Town"....en hann var lokaður þar sem Sýrlendingarnir voru í sumarfríi, ætlaði hann með okkur á "The lesbian hamburger joint" en sögur herma að þær bjóði uppá bestu borgara bogarinnar...en viti menn þær voru líka í sumarfríi. Þá var bara einn staður eftir sem við "urðum" að fara á, og það var Schwartz's "the best smoked meat place in town" og hann var opinn...og got betur en það, það var röð!
Eftir að hafa beðið meðal feitra amerískra kjötferðamanna í korter var okkur loks hleypt inn í herlegheitin....en þeim er erfitt að lýsa...
...tvo hvít brauð, smá sinnep, og 20 lög af reyktu kjöti....borið fram með sveittum frönskum...og það var röð! Sem má sjá hér fyrir neðan, og hlæjandi kanadamaðurinn fremst á myndinni er Daníel.
Sunnudagurinn í helgarferð okkar til Kanada fór í Dagsferð til höfuðborgarinnar þar sem haldið var í leit að týndum æskuminningum Hjartar sem bjó á þessum slóðum fyrir 18 árum síðan. Fyrsti áfangastaður var 3797 Bank street en það var æsku heimilið. Þrátt fyrir að langt var um liðið fundum við staðinn strax...og hann var miklu minni en í minningunni. Enginn var heima í húsinu og ráfuðum við þvi um garðinn svolitla stund, og má hér sjá Daníel og Hjört pósa fyrir framan Gasíbóið í garðinum.
Næsta takmarkið var að finna Blossom Park Public School þar sem Hjörtur hóf nám í kindergarden 4 ára. Það reyndist aðeins erfiðara, enda skólinn einhversstaðar, inní einhverju hverfi og leiðsögumaðurinn, Daníel, aldrei komið þangað. En eftir ónákvæmar lýsingar afgreiðslustúlku sem vissi ekki hvaða skóli þetta var römbuðum við samt á réttan stað við mikinn fögnuð Hjartar.
Fátt annað markvert gerðist í Ottawa nema hvað að við ætluðum upp í að turninn í þinghúsinu en hann var lokaður! :(
Mánudagur í Montreal var rólegur og góður með ferð í grasagarðinn og upp i Olympíuturninn. Síðan var komið að því að taka rútu til New York. Við komum á rútustöðina rúmlega 9 örugg um sæti enda 3 rútur í boði það kvöldið, þá sáum við alltíeinu svona 80 manns í röð á undan okkur og ekkert að gerast. Röðin stækkaði og stækkaði, fyrsta rútan fór aldrei, en við komumst um borð í síðustu rútuna um miðnæti.
Áætlaður aksturstími til New York var 8 tímar en þá var ekki gert ráð fyrir landamæraeftirliti BNA. Þangað komum við klukkan 1 en vorum ekki farin fyrren 4:30. Þá leist skötuhjúum ekki á blikuna enda farið að verða tæpt að við myndum ná fluginu. Þegar við, og 80 kílóinn okkar, komum loks til New york tóku við umferðateppur dauðanns og við vorum ekki kominn á Central Station fyrren 12 á hádegi, en þá áttum við einmitt að vera að tékka okkur inn á JFK.
Við skelltum okkur því í Taxaröð og fengum sem betur fer bílstjóra sem ekki er annt um líf sitt, því hann hlýddi okkur og keyrði eins og geðsjúklingur. Okkur til ómældrar ánægju.
Allt fór svo vel að lokum eins og góðu ævintýri sæmir og við komum á flugvöllin þegar 10 min fyrir final tékk inn. Aftur komumt við upp með að borga ekki fyrir aukakílóinn og vorum því búinn að spara tugi þúsunda :) Flugið til Mexíkó gekk vel og þar stigum við út í ferskan 35 gráðu hitann í Monterrey á þriðjudagkvöldinu hress og kát :)

Wednesday, July 16, 2008

Hér er Montreal, um Montreal, frá Montreal til Monterrey

Jæja kæru vinir, þá erum við loks komin í netsamband og getum deilt með ykkur sögum af ævintýrum síðustu daga.

Sagan verður að hefjast heima á Íslandi þar sem fyrsta þolraunin kom i ljós...en hún var farangurinn! Þegar við höfðum pakkað i þriðja sinn var farangurinn ennþá 80 kíló...

Stór taska 23 kg.
stór taska 21 kg.
bakpoki 18kg.
handfarangur 10 og 8 kg.

Hér má sjá Ester glíma við kílóin
Leyfilegur farangur hjá Heimsferðum var 40 kg. í tjekk inn og 2x6 kg. í handfarangur eða 52 kg. Þannig að við vorum með 28 auka kíló. Þeir sögðust rukka 500 kall á kíló...þannig að við bjuggumst við 14 þús í yfirvigt...en viti menn, Dömunni í tjekk inn var slétt sama leit ekki á vigtina og við sluppum í gegn :)

Þannig að það var hamingja (og öl) í Leifsstöð.
Eftir eins tíma seinkun og fimm tíma flug tók fjölskylduvinurinn Daníel Babin á móti okkur. Hann ljáði okkur íbúð sína í Montreal og var okkar persónulegi leiðsögumaður um borgina. Daníel þessi veit hvað hann vill og vill ekki mikið og lifir einkar einföldum lífstíl einfarans. Stofan hans er einstaklega gott dæmi um það og er um margt frábrugðin hefðbundinni íslenskri stofu.
Þar er stóll fyrir einn á móti hljómflutningstækjum og sjónvarpið er stundum sett upp á sunnudögum.Eftir lendingu í föstudagskvöldi, kvöldverð og svefn fór hr. Babin með okkur í 12 tíma göngutúr um borgina á laugardegi. hann fræddi okkur um fjölþjóðlegt mannlíf borgarinnar sem byggist á innflytjendum frá fyrrum nýlendum Frakka, því þeir kunna frönsku. Við lærðum að í Montreal er mikið af kirkjum og hátíðum. Bara þegar við vorum þar var Comedy festival, Multicultural festival og African festival.

...þetta tók heldur langan tíma og verður ferðasaga frá Kanada því kláruð síðar með framhaldi, fyrir forvitna erum við komin til Monterrey í Mexíkó heil af húfi.

Tuesday, July 8, 2008

Fyrsta stig pökkunar hafið

Þá er komið að því...veruleiki ákvarðanna okkar er að ná í skottið á okkur í formi hálffullrar ferðatösku. Það sem áður var þokukennd draumsýn sveipuð mystri framtíðarinnar er orðið að hinni stuttu tímaeiningu..."eftir viku".

Já eftir viku munum við fljúga á vit ævintýranna, á nýjan stað, í nýju landi, í nýjan heim, með nýju fólki. Okkar bíður 11 mánaða dvöl í Monterrey í Mexíkó, borg fjalla og fyrirtækja, ringulreiðar og rokktónlistar, háskóla og hita (cnn spáir því að fyrsta sólin sem við sjáum verði 37 gráðu heit og svona heiðskýr).(veðurpá í monterrey á cnn.com)


En fyrst munum við halda í slökunar, menningar og minningarferð á æskuslóðir Hjartar í Kanada og verja næstu helgi í góðu yfirlæti hins geðþekka, sérlundaða og minimalíska frönskumælandi kanadamanns Daniels Babin í Montreal. Þaðan verður síðan haldið með næturrútu yfir landamærinn og til tímabundinnar dvalar í faðmi fallandi stórveldisins þaðan sem við munum fljúga frá Nýju Jórvík á þriðjudag.

Ef við verður ekki búinn að birta nýtt blogg innan tveggja vikna og enginn hefur heyrt frá okkur má gera ráð fyrir að við höfum verið lokuð inni án dóms og laga af heimsveldinu og biðjum við ykkur endilega að hafa samband við sendiráð BNA og krefjast lausnar okkar, en líklega mun þetta ganga snuðrulaust fyrir sig.