Sunday, September 28, 2008

Ferðasaga - Fyrri hluti

Jæja góðir hálsar nær og fjær, þá höfum við loksins gefið okkur tíma til að blogga um jjaaa…síðasta mánuð ævintýra okkar í Mexíkó. Það sem helst ber að segja ykkur frá er 10 daga ferðalag okkar til Veracruz ríkis sem liggur að Mexíkó-flóa. Ferðin hófst á kvöldflugi til Veracruz borgar þar sem tók á móti okkur vinalegur eldri maður á Hosteli sem kom virkilega á óvart...hljóðlát loftkæling, engir kakkalakkar, sjónvarp og nokkuð þægilegt rúm. Stoppuðum þó stutt hjá þeim gamla því næsta dag var ferðinni heitið í fjallaþorpið Jalcomulco þar sem planið var að fara í flúðasiglingar, ofuraparólur og klettasig. Fengum samt að geyma ferlíkis stóru töskuna okkar hjá honum þannig að við héldum til fjalla með tvo bakpoka fulla af óvissu um ævintýri næstu daga...og Ester með nýjan hatt.
Í Jalcomulco var tekið á móti okkur með pompi og parkt og við keyrð á hostelið okkar, sem reyndist vera í bakgarði Rafting Sin Limites, fyrirtækisins sem bauð uppá ferðina. Og garðurinn reyndist bara vera hin argasta snilld, fallegar framandi plöntur í blóma allstaðar, lítil sundlaug, borðtennisborð, hengirúm og almenn kósíheit.
Fyrsta ævintýrið á dagskrá var klettasig niður 65m af rúmlega 200m háan klett. Til að komast þangað þurftum við að ganga í um hálftíma í hitanum, og rákumst þar á stærsta kaktus sem við höfum nokkurntíman séð
Eins og sjá má vorum við tilbúinn í slaginn
Hjörtur fór fyrst niður vegginn og tók sinn tíma í það og var lengur en þeir tveir sem á undan höfðu farið, sem fór ekki vel í Ester sem var næst. Hún lét þó slag standa og gekk með ágætum, allavega á síðustu metrunum.
Næsta ævintýr á dagskrá þann daginn var ofuraparóluþeytingur þar sem við runnum eftir vírum milli trjáa, yfir ánna fram og til baka. Stórskemmtilegt
Eftir það fórum við hádegismat á hostelinu, en allur matur var innifailinn í ferðinni eða 6 máltíðir. Þær, eins og allt annað við þessa ferð, komu skemmtilega á óvart. Í öll mál var boðið upp á hlaðborð með hinum ýmsu ljúfengu réttum og erum við bæði sammála um að þetta var bara besti matur sem höfum fengið í mexíkó. En eftir mat var komið að fyrri flúðasiglingunni okkar sem var allveg stórkostleg. Í tæpa tvo tíma henntumst við niður hvítfrissandi ánna í baráttu við kraft vatnsins. Þaðan eru því miður engar myndir, enda ekki ráðlagt að fara með myndavélar í svona. Við vorum samt með vatshelda einnota myndavél sem á eftir að framkalla. En 5000 manna þorpið Jalcomulco var semsagt fullt af ævintýrum og öðruvísi stemmingu en við höfðum áður kynnst í Mexíkó. Allir íbúar sátu úti á stétt fyrir utan hús sín, bærinn iðaði af lífi, fólk gekk um með bjór í hönd (afbrot sem fólk er fangelsað fyrir í Monterrrey) og gamlir menn elduðu og seldu mat úr hjólbörum
Og lögreglan fylgdist með af pallbílum sínum mundandi sjálfvirku hríðskotabyssunum (þorðum ekki að taka mynd af þeim) En við fórum semsagt agalega sátt frá þessu yndilega litla þorpi og mælum með því að allir þeir sem villast til Veracruz skelli sér þangað...

5 comments:

Anonymous said...

Vá flottar lýsingar og eflaust spennandi ferð. Gaman að fá að fylgjast með svona fljótlega. Kv.mamma Anna

Anonymous said...

æji þið eruð svo mikil krútt...
og æðislegur hattur ester :)
hlakka til að lesa meira ...

Anonymous said...

En gaman - ég býð spennt eftir seinni hlutanum af ferðasögunni :)
Mikið rosalega eruð þið dugleg að fara í svona ferðir.....vildi óska þess að ég væri að skemmta mér með ykkur ;)
Knús!

Anonymous said...

Hljómar vel - fyrir utan öll þessi fjallaklifur. Ég verð bara lofthrædd við að hugsa um þetta:) Haldið áfram að njóta lífsins.
kv. Ingunn

Anonymous said...

Vá þetta er greinilega geggjuð ferð hjá ykkur. Gaman að fylgjast með ;)

Bestu kveðjur úr kuldanum á íslandi
Sonja