Thursday, August 21, 2008

Rútínur og teiti

Jæja, ætli maður verði ekki að blogga fyrst maður er búinn að stofna þessa síðu :s

Síðustu dagar hafa verið með rólegasta móti og lífið í Mexikó hægt og rólega að taka á sig mynd. Salsa er ennþá dansað kl. 10 morgna 3var í viku og hafa skipulagðar yoga æfingar verið að hjálpa Hirti við að smeygja sér í dansskóna með jávæðu hugarfari, og er þegar farið að gæta framfara í dansinum...samið verður um einkatíma við heimkomu.

Annars er skólinn búinn að vera að taka á mynd hjá Hirti, þónokkrar kröfur um heimanám og próf í öllum áföngum í hverjum mánuði, foreldrar ríku mexíkana verða að fá fregnir af því hvernig fjárfesting þeirra gengur. Ester er búinn að vera á fullu í undibúningi fyrir inntökupróf í Leiðsögumanna námið, en um helgina var samt tekin smá pása frá því ;)

Fráfarandi herbergisfélagi okkar Martin bauð til kveðjugrillteitis á 500fm. Þaksvölunum okkar á föstudeginum og var hressleikinn í fyrirrúmi þar eins og sjá má á eftirfarandi myndum.

Carlos hrikalega hissa

Xavier með 12 ára viskí

Fráfarandi Martin & Hjörtur

Hjörtur að staðfesta hressleika með merkjasendingum :)

Á laugardeginum kíktum við síðan í eitt fjölmennasta „heimapartý“ sem við höfum nokkurntíman farið í þar sem meirenn 100 manns fylltu garð milli húsa hæfilega stórum drykkju einingum.

Annars er það í fréttum að ég (Ester) náði spænskuprófinu og fæ því að hefja nám sem leiðsögumaður bæði á ensku og spænsku. Ég er samt ekkert sérlega glöð yfir þessu því mér var „leyft“ að ná þar sem ég mun að öllum líkindum bæta við spænskukunnáttu mína hér í Mexicó. Það mun ég reyndar vissulega gera enda loksins buin að finna námskeið í spænsku fyrir útlendinga. Versta við það er samt að spænskunámskeiðið þarf endilega að vera á sama tíma og arabísku dansarnir og því varð ég að hætta þeim,..... verst að ég var búin að kaupa mér pils og allt saman L en jæja... ekki mikill skaði skeður, hef ákveðið að byrja að æfa box í staðinn... :D:D Fann hér boxacademiu sem mér líst agalega vel á og er búin að fara í 2 tíma...

Svo erum við að fara í ferðalag í kvöld með skólanum hans Hjartar til nýlendubæjarins Zacatecas...sem virðist ekki vera svo langt frá en tekur samt 8 til 10 tíma í rútu .... ætlum þar að skoða einhverjar rústir og fullt af söfnum og svo skilst okkur að þar sé gömul silfurnáma sem í dag sé skemmtistaður... spennandi að fara þangað... niður með liftunni :O

Tuesday, August 12, 2008

Canyoning

Nú er víst lífið byrjað fyrir alvöru hér í Monterrey. Hjörtur byrjaður í skólanum og strax komin með heilan helling af heimanámi. Ester notar bara tímann á meðan hann er í skólanum til að æfa sig í spænskunni, dugar víst ekkert minna enda styttist í inntökuprófið í spænskunni hjá henni.

Við föttuðum í gær að það eru einhverjar pöddur sem búa i rúminu okkar, eða í rúmstokknum sem bíta Ester á nóttunni!!! Geðslegt það. Ester virðist vera með sætara blóð en Hjörtur því hann sleppur alfarið frá þessum bitum. Héldum alltaf að þetta væri moskítóflugur, en erum nú sannfærð um að þær eru ekki í íbúðinni, og heyrðum að þetta væri ekki svo óalgengt, þannig að nú verður bara að spreyja rúmið hátt og lágt!!!

Hjörtur er búinn að ná að færa spænskuna sína neðar um eitt level í viðbót eftir að hafa setið 4 tíma í level 3 gjörsamlega lost og líður nú mun betur, ætti að vera komin í áfanga við sitt hæfi. Ester fór í síðustu viku að prófa hip hop og arabíska dansa, en þar sem hún var alveg eins og asni í hip hopinu urðu arabísku dansarnir fyrir valinu og verður hún því vonandi agalega fær í því í lok annarinnar.

Föstudagurinn var síðan afar crusial dagur, því þá ákváðum við að fara í canyoning ferð á sunnudeginum. Til þess að geta farið í hana þurftum við að hafa mjög góða skó. Sem við áttum ekki. Þá ætluðum við bara að skella okkur yfir landamærin og til Texas (því allt er víst meira en helmingi ódýrara þar) í einn dag. En eftir að hafa skoðað rútuferðir og hugleitt þetta nánar þá ákváðum við að það væri ekki þess virði fyrir tvö pör af gönguskóm. Skelltum okkur því niður í bæ og viti menn, í fyrstu búðinni fengum við þessa fínu gönguskó og löbbuðum þaðan út klukkutíma síðar, með bros á vör og 28 þúsund kr. fátækari.

Síðar um daginn tókum við smá stundarbrjálæði og við ákváðum að skella okkur í ferðalag. Án þess að velta því lengi fyrir okkur hvert leiðin lá, þá pöntuðum við ódýrasta flugið sem hægt var að fá nálægt ströndinni. Áfangastaðurinn er Veracruz og ætlum við að dvelja þar í 10 daga í september. Planið var hinsvegar flatmaga á ströndinni og leika sér í sjónum alla daga, en við nánari skoðun, daginn eftir, komumst við að því að Veracruz er bara alls ekki strandbær! Þetta er einn mikilvægasti skipasamgöngustaðurinn í Mexicó þannig að þarna er bara risastór höfn og sjórinn víst svo rosalega mengaður að hann er ekki til böðunar. Vissulega eru einhverjar strendur þar en þær eru víst „not so clean and appealing“. Frábært!! En Veracruz á víst að vera afskaplega falleg og skemmtileg borg og því hljótum við að finna okkur eitthvað til dundurs :)

Um kvöldið var síðan stærsta party ársins (höfum við heyrt) á vegum TEC og við mættum að sjálfsögðu. Rútur voru frá skólanum og niður í bæ á fínasta skemmtistað bæjarins þar sem allt var rándýrt, en þó á sérstökum afslætti í tilefni kvöldsins. Ágætis staður en við yfirgáfum hann þó frekar snemma, enda óvön því að mæta á skemmtistað klukkan 22.30. Við prófuðum síðan írskan stað sem í fyrstu leit út fyrir að vera fínasti staður en eftir smá tíma, nánari athugun og myndatöku á klósetti (af ókunnugum) ákváðum við að þetta væri alls ekki staður fyrir okkur og fórum heim.

En þá er það sunnudagurinn!!

Canyoning!! (eða gljúfurganga)

Lagt var af stað klukkan 4.30 um morguninn frá skólanum. Hressandi eftir 1-4 tíma svefn. Hjörtur svaf 4, og Ester 1 því hún gat ekki sofnað fyrir stressi. Þeir sem þekkja hana best vita að hún er sjúklega hrædd við að hoppa fram af klettum og ofan í vatn og Hjörtur var svo yndislegur að nefna að það yrðu allt að 12 metra stökk í ferðinni, svona rétt áður en við fórum að sofa. Takk Hjörtur!

En jæja, lagt var af stað kl 4.30 og við héldum að við gætum svo sofið bara í rútunni. En nei nei, við tók eldgamall strætó með viðeigandi óþægilegum sætum í svona 40 mín. Svo skiptum við um farartæki og þá fórum við í svona ekta pickup. Með trégrind, uppá palli og þar var manni troðið 12 manns, á gólfið. Og við tók ábyggilega einn af topp 5 hættulegustu fjallvegum heims.

Hér má sjá bílinn sem við fórum í


Hér er ein, léleg mynd af versta vegi í heimi, þar sem stundum var

ekið yfir steina, á stærð við íslensk fjöll ;)

Þar skoppaði maður fram og til baka, upp og niður í 3 tíma. Þar komum við að pínulitlu fjallaþorpi og okkur tilkynnt að við værum EKKI að fara í þá ferð sem við skráðum okkur í ! Planið var að fara í Matacanes en þar hafði rignt svo mikið kvöldið áður þannig að það var ekki hægt og því værum við þarna. Og við munum engan veginn hvað staðurinn hét, það eina sem við munum er að nafnið tengist hydrophobia, eða sjúklega hræðslu við vatn

Ok, lagt var af stað kl 9 um morguninn, og við áttum ekki að vera með bakpoka og því samanstóð nestið af hálfu líter af vatni, þremur orkustykkjum og nokkrum hnetum. Við tók einhver svakalegasta ganga sem við bæði höfum farið. Hún hófst á skuggalega brattri klukkutíma göngu inni í skógi, og ofan í gil. Þar var fyrst, og jafnframt eina stoppið í göngunni og fólki gafst tækifæri á að baða sig í lítilli tjörn og fara inn í helli og hoppa ofan í tjörnina, undir fossi.

Svona var maður flottur í göngunni

Svo hófst gangan fyrir alvöru. Gengið var í ánni, allan tímann, með vatn, ýmist upp að hnjám, mjöðmum, eða bara syndandi og við tóku fullt fullt fullt af hoppum ofan í ánna og náttúrulegum rennibrautum af ýmsum gerðum. Því jú, þetta var gil og oft komu fossar þar sem engin önnur leið niður var nema að hoppa fram af, því ekki var hægt að snúa við og bara hey, ég er þreytt, og tek ekki þátt í þessu. Það var bara ein leið til að klára þetta og það var að hoppa. Hoppin voru allt frá hálfum meter og upp í 13 metra, reyndar var það 9 metrar sem var hæsta skyldustökkið. En jesús minn hvað Ester þurfti að taka á honum stóra sínum til að klára þetta. Oft á tíðum stóð hún upp á klettinum, með þvílíkan skjálfta í fótunum (Eva þú þekkir þetta ;)) að peppa sig upp, á meðan innri rödd hennar sagði bara „glætan, ekki séns að ég færi fæturna til að stökkva þarna niður“ því það var ekki nóg með að stökkva fram af, heldur þurfti maður oft að hlaupa fram af til að ná nógu miklu tilhlaupi til að komast yfir klettinn sem var fyrir neðan.

Þann stutta tíma sem ekki var gengið í vatninu, þá var gengið á þröngum stígum sem var þakinn Ivy, eða plöntu sem brennir mann. Skemmtilegt!

Svo, NÍU TÍMUM SÍÐAR var loksins komið á áfangastað! Og skal ég segja ykkur það, að að ganga í 9 klukkutíma í 40 stiga hita án drykkjarvatns og nánast án næringar er ekki sniðugt. Síðustu 3 tímana var manni farið að líða verulega illa, og það var ekkert hægt að setjast niður og taka pásu, pústa aðeins, nei nei, það var bara andele andela, vamos, vamos (áfram áfram , go go go) stanslaust, eins og við værum í kappi. Einu skiptin sem hægt var að ná andanum var þegar stærstu stökkin voru því þá myndaðist smá biðröð, nema fyrir Ester var það engin pása því þá var hún bara í kvíðakasti fyrir næsta stökki hehe... en í heildina á litið alveg ótrúlega skemmtileg ferð og ógleymanleg lífsreynsla þar sem við sáum rosalega mikið af hrikalega fallegum stöðum og mikill missir að hafa ekki getað verið með myndavél í ferðinni. En við getum víst keypt einhverjar myndir af guidunum, við setjum þær hér inn þegar við fáum þær.

Og merkilegt nokk gátu sumir látið fara vel um sig á bakaleiðinni, enda algjörlega uppgefnir

Tuesday, August 5, 2008

Fyrsta vikan, vinir og sólbrennsla

Jæja, margt búið að gerast síðan síðast. Kynningarvikan í skólanum hjá Hirti var í síðustu viku og hófst hún með pompi og prakt þar sem 200 alþjóðlegir nemendur skunduðu í hlaðborð á mánudagskvöldið. Þar sátum við saman á borði með 8 öðrum nemendum og á þessu 10 manna borði voru töluð 7 tungumál... íslenska, þýska, franska, spænska, enska, danska og tékkneska!

Hægt var að smakka hinar ýmsu mexikönsku kræsingar og eins og sönnum íslendingum sæmir tróðum við öllu á diskana okkar til að smakka allt. Svo var maður ægilega skömmustulegur eftirá þar sem maginn rúmaði ekki allan þennan mat og helmingurinn var skilinn eftir :S
Eftir það fórum við með nokkrum nemendum á local bar hér sem nefnist lov pub og er ægilega notalegur staður og er hér með orðinn barinn okkar, þar sem þar var spiluð alls konar skemmtileg tónlist og þar virtust vera fleiri stillingar á volume takkanum í græjunum heldur en einungis on og off eins og virðist vera almennt á öðrum stöðum hér (því ekki er gert ráð fyrir að fólk geti talað saman).

Þarna mynduðust strax nokkur vinatengsl og höfum við hitt nokkrum sinnum aftur tvo danska stráka og einn svisslending. Einnig fór Ester með tveimur frönskum stelpum í sundlaugina hér rétt hjá á þriðjudeginum og sólaði sig :D Hér til hliðar má sjá þá Julian, Rasmus og Jacob.


Á miðvikudeginum átti Hjörtur svo að mæta í skólann og athuga áfangana sem hann var skráður í. Þar kom í ljós að það var ekki góð hugmynd að ég hjálpaði honum við spænsku prófið sem var tekið á Íslandi því hann var settur í intermediate 2 sem er level 4 af 6 mögulegum. Hann fór því til að breyta þessu og ætlaðist til að vera settur í beginners 1(að sjálfsögðu talar enginn ensku) og volá... þegar hann kom þaðan út var hann í intermedio 1 og kominn í tvo aðra áfanga sem voru eingöngu kenndir á spænsku. (svo metur hver fyrir sig hve góð spænskukunnátta hans er :O). Þegar hann kom heim og áttaði sig á hvað hafði gerst, fékk hann algjört panic því lágmarks einkunn til að ná áfanga er 7.0 og því orðið ansi hæpið að hann næði önninni, fengi námslán og næði að útskrifast á réttum tíma. Þannig að hann þurfti að fara til baka og reyna að babla sig út úr þessu og skrá sig aftur í upprunalegu áfangana á ensku.

Og já, svo er það í fréttum að við erum komin með herbergisfélaga nr. 2. Hann heitir Carlos og er frá Mexicó, Martin er ekki fluttur út, þannig að þeir deila herbergi. Okkur líst mjög vel á Carlos og hann er hér á 5. önninni sinni í tec og því fróður um svæðið og hefur nú þegar reynst okkur mjög vel, sér í lagi við að útskýra skólalóðina fyrir Hirti (og skólalóðin er á stærð við Laugardalinn í heild sinni).

Við erum búin að fara í almenningssundlaug í Park Espana þar sem hjörtur náði að skaðbrenna á sér bakið.. stórhættuleg iðkun þessi sólböðun.

Á laugardaginn fórum við svo með leigubíl í svona almenningsgarð hér til að fara á línuskauta og hjólabretti, því það er nánast ekki hægt inni í borginni. Stórfínt en alltaf erfitt að hreyfa sig svo mikið í svona miklum hita.

Og kom í ljós að Ester er ekki eins klár og Hjörtur á hjólabretti...

En sumir meiddu sig líka meira en aðrir...

Svo fórum við í party til Rasmusar (annar dönsku strákanna) á laugardaginn, einkar skemmtilegt það kvöld.

Og viti menn, svo erum við farin að læra Salsa! Fórum í fyrsta tímann okkar í dag og var stórskemmtilegt, Hirti fannst hann eitthvað kjánalegur þar sem hann hefur aldrei farið áður í danstíma en hann stóð sig stórvel og því ekki yfir neinu að kvarta, efast ekki um að við verðum langflottust á dansgólfinu þegar líður á önnina :D

Bless í bili...

Sunday, July 27, 2008

Leikskólakennarinn Betty og Latibær

Góðan og blessaðan daginn gott fólk. Frá Mexíkó er það að frétta að Dolly náði ekki til Monterrey og varð því lítið annað en yfirvofandi ógn sem aldrei varð. Dolly varð samt til þess að við fórum ekki í ferðalag þessa helgi heldur héldum okkur í ævintýraleit á heimaslóðum okkar í Monterrey.
Eitt þeirra var þegar kíkt var út á lífið ásamt nýja meðleigjandanum, Martin, og þýskum kunningja hans á miðvikudagskvöld en þá var tilboð á bar í hvefinu...5 í fötu á 55 pesóa, eða rúmar 400kr. Hér fyrir neðan má sjá ein myndina sem við eigum af Martin en hann er þjóðverjinn til vinstri, og á ættir sínar að rekja til Póllands.
Á barnum tók á móti okkur hress og kátur, og enskumælandi, mexíkani, Javier. Hann sagði okkur frá hinum ýmsu skemmtilegu staðreyndum um Monterrey. t.d. að heldri borgarar Mexíkönsku Mafíunar hafi fluttst til borgarinnar á síðastliðnum árum og með þeim hættuleg ungmenni úr fjölskyldunni sem eiga það til að bera vopn, og gera miðbæinn hættulegan. Þá sagði hann okkur einnig frá því að byssurnar sem lögreglan í Mexíkó er með eru óhlaðnar? Hér sést Javier heilsa að hermannasið.
Fimmtudagurinn fór í milda þynnku, tímabundið þunglyndi og verslunarferð í stórmarkaðinn og fyrsta spænskutíma Esterar hjá nýja kennaranum. Búist var við að sú nýja hefði reynslu af því að kenna fullorðnum og þessvegna hafi sú fyrsta bent á hana, enda var hún grunskólakennari. Ekki varð það raunin því á móti Ester tók leikskólakennarinn Betty sem ætlar að kenna henni spænsku. Betty er víst annsi fín og ætti þetta því allt að ganga vel, þó að Ester í "eldri" kantinum miðað við það sem Betty er vön.

Á Föstudaginn héldum við í ævintýraferð til Guadalupe, sem er borg samliggjandi Monterrey. Þar létum við taxann skutla okkur í miðjan bæinn og gengum svo í átt að því sem á korti leit út fyrir að vera skógi vaxið svæði. Þegar við nálguðumst það fórum við að heyra ítrekuð hópöskur...og jú, það var ekki um að villast, við höfðum rambað á Tívolí. Eftir að hafa gegnið vitlausa leið í 20 min. ákváðum við að taka taxa að inngangnum. Og hvað haldiði að hafi blasað við okkur annað en líkneski af Sollu stirðu sem búið var að hengja upp í tré. Undir því dönsuðu börn og fullorðnir og kyrjuðu söngva sem við munum aldrei vita hvað þýða.
En tívolí ferðin var hin allra besta skemmtum eins og sjá má. Við fórum í fullt af tækjum, borðuðum vondan Subway, og jafn vondan hamborgara. Næst stefnum við að því að fara á sömu slóðir í Dýragarðinn, sem er samliggjandi tívolíinu.
Á laugardagskvöldið kíktum við á Djammið í Monterrey sem fer fram í Barrio Antiguo. Þar er allt morandi í klúbbum og skemmtistöðum. Við fórum að ráðum Martins og kíktum á SUITE. Þar kostaði 250 pesóa inn fyrir okkur bæði, eða um 2000kall, en allir drykkir voru á 1 pesóa, eða um 8kr. Útþynntir drykkirnir voru bornir fram í fáránlega stórum klakafylltum frauðplastsglösum...þetta var eini slíki drykkur kvöldsins og eftir þetta fengum við okkur bara bjór.
Eftir að hafa drukkið nokkra drykki á SUITE ákváðum við að prófa eitthvað annað, enda Mexíkanska tónlisitinn framandi og erfitt að dansa við hana og staðurinn gjörsamlega stappaður. þá römbuðum við inn á hressan raftónlistarklúbb og áttum dansgólfið frá fyrstu mínútu.
Mexíkanarnir héldu ekki vatni yfir trylltum dansi íslendinganna og gerðist hrikalega fyndinn atburður. Eftir um hálftíma dans sat Ester og var að hvíla sig þegar ung mexíkönsk dansmær nálgaist hana feimnislega og spurði hana góðfúslega leyfis hvort hún og vinkonur hennar mættu dansa við kærastann hennar. Hlægjandi gaf Ester leyfi fyrir því og skyndilega var Hjörtur með Mexíkannskar meyjar á alla kannta. Dansinn varði meðan Ester náði í nýjan bjór og nýtti Hjörtur tækifærið þegar hún kom aftur til að yfirgefa dansinn, enda allur hinn kjánalegasti.

Wednesday, July 23, 2008

Dolly snýr aftur

Nú rúmum 11 árum eftir að skoska kindinn Dolly skók heiminn sem fyrsta klónaða spendýrið hefur ókindinn Dolly snúið aftur í formi 2.stigs fellibyls sem stefnir óðfluga í átt að Monterrey.
Þegar þetta er skrifað er klukkan 15.40 að staðartíma og vindurinn þegar orðinn meiri en hann hefur áður verið á okkar 8 dögum hér. Áætlað er að Dolly nái til Monterrey með kvöldinu þannig að við bíðum spennt eftir okar fyrstu kynnum af fellibyl sem þið fáið að heyra af von bráðar.

En á jákvæðari nótunum...þá eru "hlutirnir" farnir að ganga aftur upp...ef svo má að orði komast. Stormurinn hefur þó haft þau áhrif á okkur að við þorum ekki að panta okkur flug útá strönd á morgun því við teljum að því gæti verið seinkað vegna Dolly og blalblabla...þannig að við verðum líklega heima.
Þar mun við njóta félagsskapar einmanna þjóðverjarns Martins sem flutti inn í herberið við hliðin á okkur fyrr í dag. Hann mun vera hér í 4 vikur áður en hann heldur af stað í ferðalag um Yucatan skaga Mexíkó.
Þá er Ester byrjuð á fullu að Læra spænsku fyrir inntökuprófið sitt sem verður í ágúst. Hún er þegar búinn að hitta einn kennara, sem neitaði að taka hana að sér, og mun hitta annan á morgun sem vonandi verður samvinnuþýðari.

Annars byðjum við ykkur vel að lifa og bendum á að heimasímanúmer og heimilsfang eru kominn hérna við hliðin á því ekkert til fyrirstöðu að fara að senda okkur bréf og gjafir :)

Saturday, July 19, 2008

Monerrey gengur upp og síðan niður

Jæja, þá erum við komin til Monterrey og búin að koma okkur fyrir. Segja má að frá fyrsta degi hafi allt gengið eins og í sögu. Við komum á ódýra hostelið okkar á þriðjudagskvöldið og þar tók einkar vinalegur mexíkani á móti okkur og sýndi okkur staðinn og sagði okkur það sem við þurftum að vita. Hann síðan benti okkur í átt að bænum og skólanum, sem hvort tveggja var hægt að sjá af svölum hostelsins. Að því loknu fórum við inná herbergið okkar sem var stórt, glæsilegt en þeim mun heitara en gangurinn sem þó var heitur. Við brugðum því á það ráð að losa okkur við sængurnar, já sængurnar, sem voru í rúminu og færa rúmið út á mitt gólf undir viftuna sem dreifði heita loftinu um herbergið til að gera svefninn bærilegri í 35 stiga hitanum.

Miðvikudagur og fimmtudagur fóru síðan í endurteknar heimsóknir á áttundu hæð glerhýsis skólans og í göngutúra um hverfin umhverfis skólan í leit að húsnæði. Í skólanum tók á móti okkur yndisleg stúlka sem hringdi fyrir okkur eitthvað um 30-40 símtöl í númer leigusala sem við höfðum séð auglýsa með RENTA skiltum í gluggum, sem höfðu hengt upp auglýsingar á símastaura eða sem við höfðum fundið á netinu. Í húsnæðisleit okkar stoppuðu okkur einnig þrjár gamlar konur og buðu okkur húsnæði til leigu, þannig að framboðið var gríðarlegt. Verst var að mikið af því sem var í boði var fyrir staka námsmenn með litlu rúmi í skítugu herbergi og þar fram eftir götunum. Því fór sem fór og eftir að hafa skoðað 8 íbúðir fórum við aftur á þá fyrstu sem var í dýrari kantinum en hafði of marga þægilega kosti til að geta sagt nei.
Einn helsti kosturinn var að við gátum hætt leitinni að húsnæði sem var erfið og þreytandi og komið okkur fyrir strax á föstudaginn. Annar kostur er að hér er boðið upp á 24 tíma gæslu og þurfum við því ekki að óttast þjófótta mexíkana, ásamt því að húsið er varið með vegg, brútal göddum og fimmfaldri rafmagnsgirðingu.

Þá er er annar kostur sem vonandi á eftir að skila okkur í toppformi heim til Íslands en það er lítil líkamsrækt sem er á 6. hæð hússins.

Til að toppa þetta alltsaman þá eru risastórar þaksvalir með sólstólum, og grilli til almannanota. Þær hafa víst orð á sér sem alræmdar partýsvalir þannig að skemmtanalífið ætti að haldast virkt hér í Mexíkó.
Þá má að sjálfsögðu ekki gleyma magnaða útsýninu af svölunum sem nær til allra átta. Hér fyrir neðan sést hvað við lentum skemmtilega nálægt skólanum, en bæði svarta háhýsið og hallandi kassarnir eru hluti af skólanum.
Ekki er þó allt gull sem glóir og að sjálfsögðu eru óskostirnir nokkrir. Einn helsti ókosturinn er sá að fljótlega eigum við von á herbergisfélaga sem við munum deila stofu og eldhúsi með og bíðum við því spennt eftir því að sjá hver og hvaðan sá eða sú verður. Þá komumst við að því að það voru nokkrir hlutir sem vantaði eins og t.d. hreinlæti...bakaraofn. Það var því ekki eftir neinu að bíða og áður en svitinn af því að bera 80 kg. farangurinn upp á herbergi var þornaður var rokið útí næsta stórmarkað, og keypt það sem vantaði og rúmlega það. þremur tímum og 25 þús krónum síðar vorum við kominn heim heiðarbýlið með hreinsiefni, 6 handklæði, mat og Black&Decker ristavélaofn....og of stórt eldfast mót :)
Eins og sjá má var Ester sátt við verslunarferðina. Síðan var skúrað, skrúbbað og skrifað niður það sem gleymdist að kaupa. Ester hélst sátt allt þar maginn fór í krampa og hlutir hættu að ganga upp og fóru að ganga niður. Laugardagurinn hefur síðan að mestu farið í maraþon salernisferðir okkar beggja og almenna leti þess á milli, en nú þegar þetta er skrifað á miðnæti á laugardegi lítur út fyrir að heimilsmönnum sé farið að batna og hægt og rólega geti hlutirnir aftur farið að ganga upp í Monterrey.

Posted by Picasa

Athugið, Athugið ný símanúmer!!!

Í gær barst símtal frá Íslandi en það voru Embla og Pabbi en þau höfðu komist að því að það vantaði 1 fyrir aftan 52 í landsnúmeri Mexíkó.
Númerin okkar eru því:

Sími Ester : +521 811 695 4807

Sími Hjörtur : +521 811 298 4550

Megi hver hringja sem tímir
Kær kveðja frá Mexíkó :)