Friday, October 31, 2008

slagsmál og mannrán

ég verð nú bara að setja hér inn fréttir gærdagsins....
en það dró heldur betur til tíðinda í hverfinu okkar.

í fyrsta lagi voru 200 manna hópslagsmál fyrir utan húsið okkar!!! frá sitthvorum menntaskólanum sem er hér í kring.

og í öðru lagi þá var skotárás í næstu götu þar sem hafði verið bílaeltingaleikur og sem endaði með því að skotið var á annan bílinn, sem endaði þá uppi á gangstétt og svo var stráknum (eða stelpunni) sem var að keyra RÆNT!!!!

ég fékk bara áfall við að heyra þetta.... svo hrikalega nálægt manni,... ég labbaði framhjá bara rétt eftir að þetta var búið.

Tuesday, October 21, 2008

Athugið

Við tókum eftir því í gær að þeir sem opna bloggið okkar í windows explorer sjá allt aðra útgáfu af blogginu heldur en þeir sem opna það í mozilla firefox. Hef ekki hugmynd af hverju þetta er, en þangað til ég finn einhverja stillingu til að laga þetta, þá mæli ég með að þið opnið bloggið í mozilla firefox til að sjá færslurnar, (veit að það sést ekki nema lítið brot af síðustu færslu ef maður opnar í explorer).

Roadtrip

Vá hvað við erum léleg að skrifa hingað inn.... en jæja...bara meiri gæði en magn (enda tekur örugglega 3 vikur að lesa næstu færslu)

Við ákváðum að leigja okkur bíl á föstudaginn og skelltum okkur í smá roadtrip. Lögðum af stað kl 9 á föstudagsmorguninn og merkilegt nokk var ekkert mál að komast út úr borginni (höfðum haft mestar áhyggjur af því, enda umferðin hér algjört rugl). Akstur að fyrsta áfangastað var um 4 tímar. Meðfram veginum í bland við tætta hjólbarða, ákeyrð dýr, fjalllendi og kaktusklædda eyðimörkina mátti sjá hin ýmsu mishrörlegu hýbíli mexíkana sem virtust draga fram lífið með því að þjónusta fólk í dekkjavandræðum eða með því að selja ferðalöngum mat.


Hér má sjá einn slíkan stað sem bæði var með mat og kaffi!
(og þetta var með stærri slíkum kofum sem við sáum)


Fyrsti áfangastaður var Real de catorce sem er pínulítill bær með 1000 íbúa og lifir núna nær eingöngu á túrisma en nokkrar bíómyndir hafa verið teknar þar upp m.a. The Mexican (með Júliu Roberts og Brad Pitt). Þessi gamli silfurnámubær var afskaplega hrörlegur, erfitt var að finna rennandi vatn þarna (samt þurfti að borga fyrir að komast á klósett) en það sem var magnað er að hann er í 2750metra hæð (sem þýddi að það var skítkalt þarna) og þessi endalaust langi vegur þarna upp fjallið endaði í 2,7km löngum einbreiðum göngum í gegnum fjallið.

Ok, þegar við komum þurftum við að bíða við göngin þar til opnaði fyrir umferðina í hina áttina og á meðan við biðum vorum við heillengi að spekúlera í skilti sem greinilega tilgreindi um opnunartíma gangana .... og jú mikið rétt, göngin lokuðu kl 23.30 á föstudögum og opnuðu aftur kl 20. Á sunnudagskvöldi... og þetta var eini inngangurinn í þorpið. Þannig að við, sem höfðum huxað okkur að fara til baka á laugardegi urðum bara að gjörasvovel að skoða allt miklu hraðar og snúa til baka um kvöldið.

Í Real de Catorce skelltum við okkur í hestaferð, sem virtist vera aðalattractionið í þessum bæ. Hjörtur hafði aldrei farið á hestbak áður og ég ekki sérlega vön heldur, héldum að þetta væri svona létt ferð bakvið fjallið að sjá útsýnið. En nei nei, gaurinn sem fór með okkur lá svo mikið á að hann var alltaf með svipuna á hestunum, aldrei nógu sáttur við hversu hratt þeir fóru og á meðan, við að skíta á okkur úr hræðslu, héldum eins fast og við gátum í hnakkinn og reyndum að detta ekki af baki. Reiðstígarnir (ef stíga mætti kalla) voru hrikalegir og ég dauðvorkenndi grey hestunum sem voru ný komnir úr annarri slíkri ferð þurftu að hlaupa upp fjallið. Þarna þeystust hestarnir með okkur (tek fram að ég náði ekki niður á ísstaðið, þannig að eg átti í mestum vandræðum með að halda mér á baki) í 2 klukkutíma.
Í byrjun ferðar, höfum ekki hugmynd um hvað bíður okkar

Shitt hvað við vorum búin á því þegar við komum til baka, lifandi fegin að hafa sloppið án þess að detta af baki. Öll blá og marin á fótunum, sár á höndum og rassi og ég veit ekki hvað og hvað.
Fórum frá Real de Catorce þetta kvöld og skelltum okkur á fyrsta mótel sem við fundum þegar við loksins komum að næstu borg og steinlágum.

Laugardagur – Hjörtur 25 ára
Eftir ekki svo langa tilvistarkreppu yfir langlífi Hjartar þá skelltum við okkur aftur af stað, skoðuðum lítillega bæinn sem við vorum í og keyptum 2 geisladiska (þar sem bílaleigubíllinn okkar var með geislaspilara en engar útvarpsstöðvar fundust),
Hjörtur að tala við mömmu sína... í tilefni dagsins

Svo var haldið til San Luis Potosi, einstaklega falleg og skemmtileg borg en þar greinilega enduðu allir peningarnir úr gull- og silfurnámubæjunum í kring. Miðbærinn var samansettur úr fullt af torgum og helling af kirkjum, hver annarri flottari (og brúðkaupin þennan dag skiptu tugum) og var alveg lokaður frá allri bílaumferð, alls staðar voru göngugötur og mikið líf. Verðum að athuga hvort við getum ekki fært okkur þangað eftir áramót :P
Aðeins öðruvísi útgáfa af salati með kjúkling en við erum vön

Verst var að við fundum síðan engan nógu skemmtilegan veitingastað til að gera aðeins betra við okkur í tilefni dagsins en þemað virtist almennt vera svona mötuneytis stemming. Þegar klukkan var að verða 22 sættum við okkur loksins við lítið sætt veitingahús með útsýni yfir eitt torgið og fengum alveg fínasta mat. Skelltum okkur svo aðeins út á lífið um kvöldið þar sem um leið og við birtumst í dyrunum kom þjónn og tróð okkur í gegnum þvöguna og fann borð fyrir okkur (allt gert fyrir hvíta túrista sko... halda að við séum svo rík). Kvöldið endaði þar á dansi og drykkju til heiðurs öllum þeim 25 árum sem Hjörtur hefur lifað af.

Heimferðinn varð síðan hin mesta vitleysa. Við ætluðum að taka smá detour og fara lengri leiðina heim (svona 500km lengri) og stoppa í agalega fínni heitri laug í flottu umhverfi sem átti að vera einhvernstaðar í Aguascalientes. Eftir að hafa keyrt þangað í þrjá tíma og hringsólað þar um í tvo tíma játuðum við okkur sigruð og héldum áfram restina af lengri leiðinni heim. Á þeirri 600km leið eftir hlykkjóttum vegum um eyðimerkur og fjalllendi sem eftir var dró það helst til tíðinda að Mexíkanski herinn sá sér ástæðu til að stoppa okkur og skoða alla króka og kima í bílnum okkar með vasaljósi.

Eftir að hermennirnir með vélbyssurnar höfðu komist að þeirri niðurstöðu að við værum ekki óvinir þeirra í stríðinu gegn glæpamönnum, sem er háð í Mexíkó um þessar mundir, var okkur boðið gott kvöld og við héldum áfram heim á leið reynslunni ríkari.

Friday, October 3, 2008

Ferðasaga – seinni hluti

Og áfram var haldið.

Eftir Jalcomulco var farið aftur til Veracruz borgar, þar sem við gengum borgina þvera og endilanga. Þar er allt morandi í sjávarréttaveitingastöðum , Hirti til ómældrar ánægju. Planið var að vera þarna yfir þjóðhátíðardaginn í von um að það yrði mikið um að vera og höfðum við heyrt að mesta partyið væri að kvöldi 15. sept. Við fórum því í miðbæinn þar sem allt var iðandi af lífi, og einhvern veginn náði trúður að troða okkur inn í sýninguna sína... gerði grín að okkur og allir hlógu... við líka, þó við hefðum ekki hugmynd um hvað var svona fyndið.

Eftir opinberu niðurlæginguna fékk Ester fallega svanslaga blöðru og var agalega sátt

Seinna um kvöldið fórum við að borða á aðaltorginu niðri í bæ og fengum meira að segja borð. Sem var mikil heppni því allt var upppantað nema á nokkrum stöðum sem leyfðu manni að koma ef maður keypti allavega eina flösku (af tequila eða vodka). Þar sem við vorum nú bara tvö höfðum við takmarkaða löngun til þess en náðum samt að fá borðJ á ágætisstað, að gefnu að við fengjum okkur nægan bjór, sáum alla flugeldasýninguna og vorum rétt hjá sviðinu. Hátíðin var samt ekki eins spennandi og við áttum von á og fórum snemma heim. Svo föttuðum við reyndar seinna að þjóðhátíðardagurinn var 16. Sept.. ekki 15. !!! great!

Því næst var haldið í 4ra tíma rútuferð til smábæjarins Tecolutla en það er lítill strandarbær norður af Veracruz með aðeins 3000 íbúum. Það var mjög sértakt að koma þarna þar sem meira en annað hvert hús var hótel og þeir sem ekki unnu þar eða í búðum unnu við að reyna að aðstoða mann við þetta og hitt, bera töskuna, velja hótel, benda manni á bestu veitingastaðina o.sfrv. Og þar sem við komum þegar ferðamannatímabilið var búið þá gátum við varla andað fyrir slíku fólki...og vorum ekki sátt.

Svo, fyrst daginn okkar, við voða spennt ætluðum að fá okkur eitthvað gott að borða en viti menn... þar sem það var bara miðvikudagur.. Þá var bara ENGINN veitingastaður opinn!!! Og klukkan samt ekki nema 8 (sem er snemmt á mexikönskum tíma). O well.. að lokum fundum við þó lítinn taco stað sem virkaði þokkalegur. Maturinn var samt yfirleitt borinn fram soldið öðruvísi en maður er vanur. Fiskisúpa með HEILUM fiski í, mð augu og sporði og öllu saman! Ester hafði því miður ekki lyst á slíkri súpu...en Hjörtur var sáttur.

Svo fórum við í siglingu um á/fljót sem rennur þar út í sjóinn, einstaklega áhugavert, fengum okkar einkaguide í 14 manna bát, en það voru svona 300 bátar þarna að keppast um að fá okkur sem viðskiptavini sína yfir daginn.

Húsbátur eða bátahús?

Allstaðar í kringum vatnið stóðu tré uppúr vatninu

En þar var sem sagt allt morandi í dýralífi. Sáum alls kyns fugla, lítinn krókodíl og rauða og bláa krabba. Einnig rákumst við á drykkjasölumann á báti sem tókst að selja okkur sitt hvoran rándýran drykkinn sem við fengum síðan bæði klígju eftir ca 2 sopa og endaði hann því miður í ánni.

Lítil stúlka blandar fyrir okkur drykk ásamt tannlausum föður sínum(ekki á mynd)

...Og við fáum klígju..

Pelíkanar

Svo fórum við til Tajin sem er einn af stærstu rústunum sem finna má í Mexicó (held reyndarí miðameríku), afar áhugavert.

Á leiðinni þangað þurftum við svo að deila leigubíl með FJÓRUM öðrum. Sem var bara fyndið.

Hérna má sjá framsæti leigubílsins...svo vorum við fjögur afturí

En planið hafði semsagt verið að liggja á ströndinni og slappa af þessa 4 daga sem við vorum þarna, en þar sem við fengum bara 1 eða háfan dag af sól þá varð nú eitthvað minna um það. En þetta var alveg ótrúlega endurnærandi frí sem við þurftum á að halda og komum við fersk til baka til Monterrey, tilbúin að takast á við fjallið af heimalærdómnum sem beið okkar... og er ástæðan fyrir því að það tók tvær vikur að koma þessum bloggum á vefinn.